Þátttöku- og venslalist eru félagsleg form listsköpunar sem hafa öðlast vinsældir og viðurkenningar á undanförnum áratugum innan listheimsins. Þetta eru listform sem byggja á nánum samskiptum ýmist við afmarkaða þjóðfélagshópa og/eða áhorfendur almennt. Í námskeiðinu verður þróun þessara listforma rannsökuð, allt frá samfélagslegu verkefni Mierle Laderman Ukeles, Touch Sanitation (1970-80), til nýrri verka; til að mynda samfélagslegrar listsköpunar Jeremy Dellers, sem birtist í verkinu Battle of Orgreave (2001), og rannsóknarlistar þeirra Allora & Guillermo Calzadilla. Skoðað verður hvernig hugmyndir um kynjahlutverk, staði, atburði, og áhorfendur, eru efniviður slíkrar listsköpunar, og hvernig þessir þættir falla saman við vettvangsrannsóknir, rannsóknarferli listsköpunar, og verða þannig mikilvægur þáttur í þekkingarsköpun almennt.