Markmiðið er að nemendur öðlist alhliða samskiptahæfni á dönsku, þ.e.a.s. bæti sig í færniþáttunum fjórum; hlusta, lesa, tala og skrifa. Lögð er áhersla á að nemendur læri að þekkja og beita reglum málsins ásamt kerfisbundinni orðaforðatileinkun.

Nemendur tileinka sér þekkingu á danskri menningu og samfélagsleg málefni með aðstoð námsefnis. Í kennslunni er notað efni af ýmsum toga (dagblöð, tímarit, smásögur, söngtextar, útvarps- og sjónvarpsefni, kvikmyndir o.fl.). Nemendur tileinka sér reglur um form og tilvísanir og læra að nota hjálpargögn s.s. orðabækur, alfræðibækur, vefi (t.d. dsn.dk), gagnagrunna (t.d. korpus.dsl.dk) og leiðréttingaforrit.

Að námskeiði loknu eiga nemendur að geta skilið texta sambærilega almennu dagblaðamáli og sértækari texta um þekkt efni. Nemendur eiga að skilja talaða dönsku eins og hún er notuð í daglegu máli, geta tekið þátt í samtölum og skilja talað mál í útvarpi og sjónvarpi þegar rætt er um þekkt efni. Nemendur hafa þekkingu á dönsku samfélagi og menningu, ásamt siðum og venjum. Nemendur geta tjáð sig skriflega og munnlega á auðskilinni og reiprennandi dönsku um almenn málefni.